Virk hlustun

Virk hlustun er nauðsynleg forsenda góðra samskipta en þá þurfa bæði foreldrar og börn að taka virkan þátt í samræðum þeirra á milli. Til að skýra virka hlustun er gott að tala um sendanda og móttakanda. Sendandi er sá sem hefur eitthvað að segja og móttakandi tekur við skilaboðunum og beitir virkri hlustun við frásögn sendandans.
Móttakandi og sendandi
Ef við gefum okkur að barn sé sendandi þá leitar barn til móttakanda (foreldris) þegar því langar til einhvers, upplifir óþægindi eða er í uppnámi. Barnið vill þá tjá sig til að koma jafnvægi aftur á líðan sína. Þá verður móttakandi að leggja sig fram við að hlusta á barnið og reyna að skilja hvað það á við.
Ef við gefum okkur að barnið sé svangt og vilji koma þeim skilaboðum áleiðis er ekki víst að það segi það hreint út heldur mögulega spyr barnið hversu langt sé í matinn. Þá ætti foreldrið ekki að setja út á óþolinmæði barnsins heldur spyrjast fyrir hvers vegna það sé að bíða eftir matnum. Virk hlustun snýst því í grunninn um að tryggja að móttakandi skilji skilaboð sendandans á sama hátt og ætlunin var. Þá er mikilvægt að spyrja og ræða málin ef eitthvað er óljóst svo hægt sé að koma í veg fyrir misskilning.
Í virkri hlustun er mikilvægt að leggja ekki dóm á skoðun eða tilfinningar barnsins heldur taka því með opnum örmum og hlusta án þess að spyrja, gefa barninu ráð eða leggja sitt mat á gjörðir barnsins. Virk hlustun sýnir að foreldri hafi áhuga á því sem barnið er að segja en hún vekur einnig traust hjá sendanda skilaboðana. Við virka hlustun er mikilvægt að foreldrar gefi sér tíma til að hlusta af einlægni á börnin sín. Einnig er gott að viðurkenna tilfinningar barnsins óháð eigin tilfinningum og skoðunum um hvernig hlutirnir „eigi að vera”.