Breytingar í nútímasamfélagi
Miklar breytingar hafa orðið í íslensku samfélagi sem hafa haft mikil áhrif á fjölskyldulíf þeirra sem í því búa. Þessar breytingar hafa orðið til þess að margir foreldrar upplifa tímaskort og jafnframt auknar kröfur til foreldrahlutverksins og daglegs lífs. Ætla má að þetta sé að hluta til vegna mikilla tæknibreytinga í samfélaginu því að samfélagsmiðlar hafa mikla stjórn á daglegu lífi notenda sinna. Mörk á milli vinnu- og frítíma verða oft óljós og þar eiga samfélagsmiðlar stóran hlut.
Einnig hefur atvinnuþáttaka mikil áhrif á fjölskyldulíf því nú eru báðir foreldrar á vinnumarkaði og þar með eru auknar kröfur gerðar til þeirra að halda utan um heimili, uppeldi og vera í fullu starfi. Þetta eru óraunhæfar kröfur sem hafa myndast og eru í ósamræmi við langan vinnudag beggja foreldra. Lengd hefðbundins vinnudags hefur haldist óbreyttur frá því að einungis annað foreldrið var á vinnumarkaði og má því segja að þetta séu úreltar kröfur sem eiga ekki við í því nútímasamfélagi sem við lifum í.
Frá því að jafnréttisbarátta kynjanna náði þeim miklu framförum sem við þekkjum í dag hefur mesta áherslan verið lögð á jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Atvinnuþátttaka íslenskra kvenna er ein sú mesta í heiminum sem gerir það að verkum að Íslendingum þyki eðlilegt að báðir foreldrar séu á vinnumarkaði. Tímabært er að færa áhersluna yfir á heimili og fjölskyldulíf þar sem báðir foreldrar ættu að taka jafna ábyrgð á uppeldi barna. Ekki er nægilega mikið horft til réttinda barnsins til að fá að tengjast foreldrum sínum þar sem þess er krafist að þau byrji snemma á leikskóla. Lausn samfélagsins virðist því oft vera að fjölga leikskólaplássum eða koma barni sem fyrst í daggæslu svo móðirin komist aftur á vinnumarkaðinn.
Börn eru því mörg hver að fara of ung á leikskóla og tapa þar með dýrmætum tíma og tækifærum til tengslamyndunar með foreldrum sínum. Mikilvægt er að foreldrar fái frá upphafi þann tíma sem þeir þurfa til að hugsa um barnið ásamt því að mynda góð og örugg tengsl við það sem varir til frambúðar. Þó svo að börn séu börn þá verða þau að fullorðnum manneskjum og mikilvægt er að leggja þeim góðan grunn að því hvað felst í að vera siðferðilega góð og heilsteypt manneskja en tengslamyndun spilar þar stórt hlutverk. Tengslamyndun í lífi barna er það mikilvægasta sem samfélagið getur fjárfest í því það hefur áhrif á hvernig næsta kynslóð mun fara með þjóðfélagið okkar.
Ung börn eru viðkvæm fyrir áreiti og því lengur sem þau dvelja á leikskólanum, því þreyttari verða þau í lok dags. Börn sem ná ekki að njóta góðra samverustunda með foreldrum sínum vegna langra eða óreglulegra vinnudaga upplifa oft verri líkamlega og andlega heilsu ásamt auknum hegðunarvanda. Það þarf að líta til hagsmuna barna því mikil áhersla er lögð á vinnumarkaðinn og meira hugsað um að bæta þjónustu við foreldra svo þeir geti unnið meira. Í stað þess þarf að gefa réttindum barnsins meira vægi og styðja við foreldra sem vilja verja meiri tíma með barni sínu og mynda við það góð og örugg tengsl.
Fullkomið samfélag myndi bjóða börnum upp á að vera heima með foreldrum sínum til 2 ára aldurs án þess að foreldrar séu við fátæktarmörk. Samfélagið einblínir meira á vinnumarkaðinn og hvernig sé hægt að græða meiri pening. Til dæmis með því að byggja ungbarnaleikskóla svo foreldrar geti farið fyrr til vinnu í stað þess að lengja fæðingarorlof eða veita foreldrum sem vilja vera áfram heima með börnum sínum styrk af einhverju tagi.
Ekki er talið æskilegt að barn byrji á leikskóla 9 mánaða gamalt því það er enn að mynda dýrmæt tengsl við foreldra sem hafa gríðarleg áhrif á velferð barnsins til frambúðar. Aftur á móti hafa margir foreldrar ekki um neitt annað að velja því það bitnar á stöðu þeirra í starfinu. Annað foreldrið þarf oft að taka sér launalaust frí frá vinnu á meðan er beðið eftir leikskólaplássi. Sveitarfélög í dag grípa því frekar til þess ráðs að byggja fleiri leikskóla sérstaklega ætluðum ungum börnum. Sæunn Kjartansdóttir, hjúkrunarfræðingur, hefur vakið athygli á vandanum og ræðir meðal annars um skort á bæði faglærðu og ófaglærðu starfsfólki. Flestir leikskólar eru í dag undirmannaðir og margir starfsmenn lítið sem ekkert menntaðir og hafa því ekki nægilegan skilning og þekkingu á þörfum og líðan ungra barna. Þessar krefjandi aðstæður hafa mikil áhrif á líðan barna sem og starfsmanna.
Foreldrafræðsla getur nýst sem mikilvægur stuðningur við uppeldið sem mörgum foreldrum og fagaðilum sem starfa með börnum þykja þörf á. Þessi vefsíða er hönnuð í því skyni að foreldrar geti leitað í hana fyrir almenna og gjaldfrjálsa fræðslu og leiðbeiningar um hvernig hægt er að takast á við ýmsa þætti uppeldis.
Heimildir
Bryndís Garðarsdóttir og Jóhanna Einarsdóttir. (2007). Á mótum tveggja heima. Samstarf heimila og leikskóla. Í Gunnar Þór Jóhannesson (ritstjóri), Rannsóknir í félagsvísindum VIII: Félagsvísindadeild (bls. 679-690). http://hdl.handle.net/1946/8481
Hólmfríður Kristjánsdóttir. (2022, 5. maí). Lengi býr að fyrstu gerð. Vísir. https://www.visir.is/g/20222257704d/lengi-byr-ad-fyrstu-gerd
Hrund Þórarinsdóttir og Sigrún Aðalbjarnardóttir. (2010). Sýn foreldra á uppeldishlutverk sitt. Í Salvör Nordal, Sigrún Júlíusdóttir og Vilhjálmur Árnason (ritstjórar), Velferð barna, gildismat og ábyrgð samfélags (bls. 115-131). Siðfræðistofnun - Háskólaútgáfan.
Hrönn Valgeirsdóttir, Hrund Þórarins Ingudóttir og Annadís Greta Rúdólfsdóttir. (í ritrýningu). „Það er erfitt að lasta foreldra fyrir að hafa ekki tíma fyrir börn sín“: Þörf á uppeldisfræðslu fyrir foreldra: Sjónarhorn deildarstjóra leikskóla. Gert er ráð fyrir að greinin birtist í bókinni Menntun ungra barna í ritstjórn Jóhönnu Einarsdóttur um mitt ár 2022.
Matthías Ólafsson. (2021, 7. september). Næsta skref jafnréttis. Vísir. https://www.visir.is/g/20212152681d/naesta-skref-jafn-rettis?fbclid=IwAR15c19IcHHAf1JcCD1nlcN08tJdqSayrPMGmLxBiALk0GbYtjiJMkCkEzE
OECD. (2021). Indicator: Employment rate. https://doi.org/10.1787/a452d2eb-en
Sigrún Helgadóttir og Hrund Þórarins Ingudóttir. (2021). „Núna eru allir einhvern veginn rosa uppteknir og það er enginn sem svona heldur utan um krakkana“: Þörf á foreldrafræðslu: Sýn umsjónarkennara á miðstigi grunnskóla. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun: Sérrit 2021 – Menntavika 2021. https://doi.org/10.24270/serritnetla.2021.3
Sæunn Kjartansdóttir. (2022, 25. janúar). Hvað á að gera við smábörn?. Vísir. https://www.visir.is/g/20222213285d?fbclid=IwAR3bNf8pypixTT-wozXNZ3chE2D9x6FaOL0AHewxtfJqzI1mS6cv-Nb-Ovo
Undheim, A. M. og Drugli, M. B. (2012). Perspective of parents and caregivers on the influence of full-time day-care attendance on young children. Early Child Development and Care, 182(2), 233–247. https://doi.org/10.1080/03004430.2011.553678
Wu, J. C. (2018). Parental work characteristics and diet quality among pre-school children in dual-parent households: Results from a population-based cohort in taiwan. Public Health Nutrition, 21(6), 1147-1155. doi:http://dx.doi.org/10.1017/S1368980017003548