top of page

Lausn ágreiningsmála

Foreldrar og börn geta leyst saman úr ágreiningsmálum eða vanda með samræðum sín á milli. Samræðurnar geta hjálpað til við að leysa úr ágreiningi og vanda í sameiningu innan fjölskyldunnar. Til er aðferð sem foreldrar geta nýtt sér en mikilvægt er að kynna hana fyrir börnunum, sérstaklega þeim sem hafa náð þroska til að taka virkan þátt. Gott er að byrja að innleiða aðferðina sem fyrst en hafa þarf í huga að foreldrar gætu þurft að aðlaga hana að aldri og þroska barns. Þá er hægt að útskýra að tilgangur hennar er að leysa úr ágreiningi á farsælan hátt. Fjallað er nánar um hvernig aðferðin virkar skref fyrir skref hér að neðan. 

 

Við notkun aðferðarinnar deila báðir aðilar hugmyndum sínum en foreldrar ættu að passa að dæma ekki né taka illa í hugmyndir barna sinna. Það þýðir ekki að þurfi að samþykkja allar hugmyndir barnsins heldur að passa þarf að gera ekki lítið úr barninu og hugmyndum þess. Þá væri frekar hægt að færa athygli barnsins á aðra hugmynd og skýra kosti hennar. Með nýtingu þessarar aðferðar upplifir enginn sigur eða tap heldur komast þeira að sameiginlegri lausn

 

Hafa þarf í huga að umræðan verði ekki of löng og þreytandi fyrir barnið en gott er að miða við 15-20 mínútur, einnig þarf þá að passa að hafa nægan tíma aflögu fyrir umræðuna. Sérstaklega er aðferðin gagnleg því hún fær bæði börn og foreldra til að staldra við, draga andann og ræða málin en aðferðinni er þá ætlað að koma í veg fyrir togstreitu og rifrildi. 

Skýringardæmi til stuðnings:

5 ára gamalt barn vill fá hund en foreldri er ekki á sama máli. 

 

Samræðuaðferðin er tekin í nokkrum skrefum en svona hljóma þau:


1. skref -   Vandamálið er skilgreint en gott er að ræða við börnin hver vandinn er og af hverju. Þá fá báðir aðilar tækifæri til að skýra hvers vegna þeir sjá málið sem vanda fyrir sig en þetta gefur einnig báðum aðilum skýra sýn á hugsun og skoðanir hvers annars.

Dæmi -   Hér gerir barnið foreldri grein fyrir hversu mikið það vill eignast hund. Ástæða þess er vegna þess að besti vinur barnsins var að eignast hund sjálfur. Foreldri reynir á móti að gera barni grein fyrir hversu mikil vinna er að eiga hund og það bitni að miklu leyti á foreldrinu. 


2. skref -  Þá er gott að rýna í tilfinningar beggja aðila, foreldri og barn geta þá sett sig betur í spor hvers annars og eru þá líklegri til að taka tillit til skoðana hins. Þá er gott að spyrja hvert annað hvernig þeim líður vegna vandamálsins en einnig er hægt að bera upp þá spurningu hvort foreldri þyki krafa barnsins sanngjörn ef það á við. Gott er þá einnig fyrir foreldri að líta í eigin barm og velta fyrir sér hvort það setji barninu óraunhæfar kröfur.

Dæmi -   Barnið lýsir því að það vill eignast hund vegna þess að það vill fara með hann í göngutúra og leika við hann. Foreldrið segir barni að það sé dýrt að kaupa hund og hugsa um hann og ekki sé til peningar fyrir því. Einnig lýsir foreldri því að það sé ekki tilbúið í að hugsa um hund því það er mikið að gera í vinnunni. 

 

3. skref -  Næst eru allar mögulegar leiðir til lausnar skoðaðar. Þær geta verið alls konar, skrítnar, óhefðbundnar, aðeins öðrum aðilanum í hag eða báðum. Hér er tækifæri til að láta hugann reika og finna gagnlega lausn sem er báðum í hag. Mikilvægt er að fá fram skoðanir og hugmyndir barnsins en í fyrstu geta þau verið feimin við það. Þá þarf að taka hugmyndum þess af opnum hug og sýna barni að hér sé aðeins um hugmyndavinnu að ræða og því séu engin svör rétt eða röng. 

Dæmi -   Hér spyr foreldri hvort eitthvað gæti komið í stað hunds eða hvort barn geti beðið í nokkur ár þangað til það er orðið nógu gamalt til að taka ábyrgð á hundinum nokkurn veginn sjálft. Barnið kemur með þá hugmynd að fá hamstur í stað hunds en það vill helst ekki bíða með að fá gæludýr. Fleiri hugmyndir gætu komið hér fram ef um raunverulegar aðstæður væri að ræða en það fer allt eftir tilfinningum foreldris og barns. 


4. skref - Þá er besta leiðin eða lausn vandans valin af þeim hugmyndum sem komu fram í skrefi 3 og henni hrint í framkvæmd. Mögulega hefur ein lausn staðið upp úr sem báðir aðilar telja æskilega en þá er gott að ræða hugmyndina og skoða hvers vegna hún hentar vel. 

Dæmi -   Hér komast foreldri og barn að þeirri niðurstöðu að barnið geti keypt sér sjálft hamstur fái það nægilega peninga í afmælisgjöf. 

 

5. skref -  Að því loknu er gott að fjölskyldan ræði hvernig þau viti að vandinn sé leystur en þá geta þau rætt áhrif og afleiðingar lausnarinnar á fjölskyldumeðlimi. Gott er líka að huga að hagnýtum atriðum sem gæti þurft að aðlaga að nýjum venjum fjölskyldunnar. Það gæti átt við háttatíma, daglegt skipulag eða skjátíma.

Dæmi -   Foreldri gerir það samkomulag við barn að það skuli hjálpa því að hugsa um allt sem tengist hamstrinum en barnið skal fylgjast með til dæmis hvenær þarf að gefa honum að borða eða drekka. 

6. skref -  Þegar hugmyndin hefur verið prófuð er gott að meta hvort hún gangi upp eftir áætlun eða hvort þurfi að aðlaga hana frekar eða breyta. Ef illa gengur er hægt að skoða aðrar mögulegar lausnir og prófa þá næstu. 

Dæmi -   Eftir því sem barnið eldist getur það sjálft tekið meiri ábyrgð á að hugsa um hamsturinn og ef það vill enn eignast hund síðar meir væri hægt að meta það út frá hversu vel þetta gekk. 

Skref 1.

Skref 2.

Skref 3.

Skref 4.

Skref 5.

Skref 6.

Dæmi

Dæmi

Dæmi

Dæmi

Dæmi

Dæmi

©2022 by Hagnýt uppeldisráð.

bottom of page