top of page

Málþroski barna

Málþroski er undirstaða samskipta og tjáningar og þess vegna er hann afar mikilvægur. Foreldrar barna eru fyrstu kennarar þeirra en með hækkandi aldri barna bætist í hóp þeirra sem hafa áhrif á málþroskann. Þar má helst nefna leik- og grunnskólakennara auk afþreyingarefnis á borð við barnabækur og barnaefni sem hefur mikil en þó í fyrstu lítt sýnileg áhrif á málþroska barnanna. 

mother and child girl reading a book in bed before going to sleep.jpg

Börn á leikskólaaldri eru sérstaklega fær í að tileinka sér tungumál en það er vegna svokallaðs næmiskeiðs en það þýðir að þau eru einstaklega fljót að ná tökum á málfræði, orðaforða og framburði orða. Þau drekka í sig orð úr umhverfi sínu og spreyta sig óspart áfram en það er ein helsta ástæða þess að þau eru svo fljót að ná tökum á máli. Þau eru óhrædd við að gera mistök sem auðveldar þeim að læra nýja hluti. 

Orða- og málnotkun foreldra

Börn læra málið hratt á þessum aldri og því er mikilvægt að foreldrar séu meðvitaðir um orðanotkun sína og velji viðeigandi efni fyrir þau til lestrar eða áhorfs. Máltaka barna eykst í samræmi við annan vitsmuna- og heilaþroska þeirra en einnig eflist hann í félagslegu umhverfi barnanna. Málnotkun barns endurspeglar því þroska þess miðað við jafnaldra og getur gefið vísbendingar um þroskafrávik séu þau til staðar.

Foreldrar eiga það til að einfalda mál sitt þegar þeir tala við börnin sín til að tryggja skilning þeirra. Gott er að breyta blæbrigðum raddarinnar en halda orðaforðanum vegna þess að íslenska tungan er flókin og margslungin. Börnin öðlast þannig betri orðaforða og læra að nota rétt orð ef málið er ekki einfaldað fyrir þeim. 

Efla má málþroska barna með fjölbreyttri málnotkun sem eykur orðaforða þeirra og skilning. Gott er að efla virka hlustun og hvetja þau til að tjá sig og segja frá hvað er þeim í huga, líkt og hvað gerði barnið skemmtilegt á leikskólanum. Þannig er hægt að efla barnið til samræðna sem eykur þar með málþroska sinn. Þá er hægt er að nýta tækifærið til að leiðrétta orðalag barnsins á uppbyggilegan hátt.

Gæta þarf að því að gefa börnum gott svigrúm til að hugsa og svara fyrir sig sjálf en það gerir þeim kleift að rækta mál sitt og koma skipulagi á hugsun sína. Gott er að hafa í huga þegar málfar barna er leiðrétt að einungis endurtaka setninguna með réttum orðum og í réttri mynd. Ekki skal draga sérstaka athygli að villu barnsins því það gæti upplifað ummælin á niðrandi hátt ef einungis er vakin athygli á mistökunum. Við endurtekningu setninga er líka hægt að bæta inn nýjum orðum og með því auka orðaforða og skilning barnsins. 

 

Orð á athafnir

Gott er að byrja snemma að tala við börnin sín með því að setja orð á athafnir. Það er gert með því að segja frá hvað er verið að gera, t.d. ,,nú ætlum við að fara í bað’’. Gott er einnig að spyrja börnin spurninga svo þau hljóti æfingu í því að setja hugsanir sínar í orð. Hægt er að aðlaga talsmáta sinn að barninu og gera efnið athyglisvert með ýktu látbragði og hegðun sem gerir bæði orðin og athöfnina eftirminnilegri fyrir barnið og stuðlar að málþroska þess. 

 

Foreldrar hafa einnig meðvitað eða ómeðvitað, áhrif á börn sín í gegnum leik. Þeir útbúa barni sínu leikumhverfi og ákveða hvaða leikföng og hluti barnið leikur með. Þá er gott að sýna barni hvernig á að leika með ákveðið leikfang, hvaða hljóð það gerir og hvernig maður leikur með það. Með leiðsögn og orðavali er hægt að auka málþroska barnsins en jafnframt stuðla að tjáningu þess. 

Málþroski á leikskólaárunum

Á öðru aldursári hætta börn smám saman að tala í stökum orðum og fara að tengja saman orð og aðgerðir þegar þau nálgast þriggja ára aldurinn. Orðaforði barna eykst mikið á leikskólaárunum en þau ná tökum á u.þ.b. sex orðum á dag. Vert er að hafa í huga að börn eru ólík og þau þroskast á ólíkum hraða svo eðlilegt er að ekki séu öll börn með sama orðaforða þó þau séu á sama aldri. 

 

Flest tveggja ára börn hafa náð tökum á 100-2.000 orðum, geta myndað setningar með 2-6 orðum og upplifa aukna forvitni á umhverfi sínu. Á þriðja ári hafa flest börn lært um 1.000-5.000 orð og geta myndað setningar með 3-8 orðum. Þau velta mikið fyrir sér tilgangi hluta og hvernig þeir virka. Einnig spyrja þau af hverju hluturinn virkar eins og hann gerir. Margir foreldrar kannast við það hvað börn á þessum aldri eru forvitin. 

 

Við fjögurra ára aldur hafa flest börn náð tökum á 3.000-10.000 orðum og geta myndað setningar með allt að 20 orðum. Þau halda áfram að velta fyrir sér tilgangi hluta og spyrja hvernig og hvenær hlutirnir eiga sér stað. Á fimmta ári kunna flest börn um 5.000-30.000 orð en þá hafa þau náð góðum tökum á málinu og mynda oft langar setningar sem stundum virðast engan endi ætla að taka. Þau ræða um hvaða málefni sem er en sérstaklega það sem þau hafa áhuga á. Börnin fara að aðgreina sig frá öðrum en sérstaklega frá hinu kyninu og spyrja mikið því tengt. 

Vert er þó að taka þessum viðmiðum með fyrirvara vegna ólíkra skilgreininga á hvað telst sem orð.

Lestur bóka

Lestur hefur góð áhrif á orðaforða barna en með lestri bóka er hægt að efla orðaforða þeirra. Hægt er að nýta sögubækur í að kenna barni ný orð. Það er gert með því að velja ákveðin orð sem gætu verið barninu flókin og útskýra þau sérstaklega. Rannsóknir hafa sýnt að reglulegur lestur fyrir börn skilar sér í betri orðaforða og hlustunarskilningi ásamt því að efla ímyndunarafl þeirra. Því er daglegur lestur bóka mikilvægur þáttur í málþroska barna.

Daglegur lestur hefur þann kost að börn og foreldrar fá að njóta samveru hvors annars og eiga þar með dýrmæta gæðastund. Tilvalið er einnig að efla sjálfstæði barna með því að leyfa þeim að velja sögubók sjálf en þar með taka þau virkan þátt í samverunni sem eykur líkur á að þau upplifi stundina ánægjulega.  

Heimildir

Aldís Unnur Guðmundsdóttir. (2007). Þroskasálfræði: Lengi býr að fyrstu gerð. Mál og Menning. 

Berger, K. S. (2017). The developing person through the life span (10. útgáfa). Macmillan

education.

Hrafnhildur Ragnarsdóttir. (2015). Málþroski leikskólabarna: þróun orðaforða, málfræði og hlustunarskilning milli fjögra og fimm ára aldurs. Netla - Veftímarit um uppeldi og menntun. Menntavísindasvið Háskóla Íslands. http://hdl.handle.net/1946/23665

Margrét Pála Ólafsdóttir. (2011). Uppeldi er ævintýri. Bókafélagið. 

Sigrún Alda Sigfúsdóttir, Jóhanna T. Einarsdóttir, Þorlákur Karlsson og Íris Ösp Bergþórsdóttir. (2020). Orðaforðakennsla með sögulestri fyrir börn með málþroskaröksun. Netla - Veftímarit um uppeldi og menntun. Menntavísindasvið Háskóla Íslands. https://doi.org/10.24270/netla.2020.4

Tamis-LeMonda, C. S., Kuchirko, Y. A., Escobar, K. og Bornstein, M. H. (2019). Language and play in parent-child interactions. Í M.H. Bornstein (ritstjóri), Handbook of parenting. Volume 5: The practice of parenting. (3. útgáfa, bls 189-213) Routledge. 

©2022 by Hagnýt uppeldisráð.

bottom of page