top of page

Samskipti foreldra og barna

Mother and Son

Samskipti er daglegur liður í lífi okkar en það er hæfni sem við þróum með okkur frá unga aldri. Samskipti geta haft mikil áhrif á líðan okkar en það fer eftir því við hvern við erum að tala og undir hvaða kringumstæðum. Samskipti sem einkennast af gagnkvæmri virðingu og umhyggju hafa almennt jákvæð áhrif á einstaklingana sem taka þátt í þeim.

Samskiptahæfni byggir fyrst og fremst á því að geta sett sig í spor annarra og geta séð ákveðið málefni frá ólíkum sjónarhornum. Með því að setja sig í spor annarra eykst samúð og samkennd manneskju með tilfinningum og skoðunum annarra. Þá felst einnig mikil samskiptahæfni í því að geta samþætt ólíkar skoðanir manna og þannig leyst ágreining á farsælan hátt. 

Góð áhrif samskiptahæfni

Samskiptahæfni hefur góð áhrif á einstaklinga og börnum sem gengur vel í samskiptum við jafnaldra sína upplifa yfirleitt meiri velgengni á fullorðinsárunum. Þessi börn aðlagast betur innan félagahópsins og eru líklegri til að hafa betri sjálfsmynd og upplifa meiri vellíðan og eiga þá síður við andleg vandamál að stríða. Þau hafa yfirleitt meiri trú á eigin getu og búa yfir betra sjálfstrausti og eru auk þess líklegri til að ljúka námi. Einnig eru þau síður líkleg til að neyta áfengis í óhóflegu magni á unglingsárunum, reykja eða neyta harðra vímuefna. 

 

Samverustundir foreldra og barna auka samskiptahæfni barnanna en í samræðum mynda aðilar augnsamband, ná tengingu og skapa nánd sín á milli. Barnið lærir að hlusta á frásögn annarra, lesa í líkamstjáningu, svipbrigði og lærir að þekkja ólík blæbrigði radda. Jákvæð og heilbrigð samskipti hafa góð áhirf á málþroska barna ásamt félags-, tilfinninga- og siðferðilegum þroska þeirra. Uppbyggileg samskipti veita barninu einnig traust og hlýju og það lærir að segja frá, færa rök fyrir máli sínu og leysa úr ágreiningi. Forsenda góðra samskipta er gagnkvæm virðing og umhyggja milli aðila. 

Mikilvægi viðurkenningar

Sumir segja að hægt sé að draga verulega úr rifrildum og erfiðri uppreisn barna og unglinga aðeins með því að kenna þeim góðar samskiptaaðferðir. Þá skiptir mestu að aðilar virði og viðurkenni hvorn annan en viðurkenning hefur jákvæð áhrif á manneskju. Upplifi aðili að hann sé viðurkenndur eins og hann kemur fyrir getur hann þroskast og blómstrað í eigin skinni. 

 

Mikilvægt er því að taka tillit til barna sinna, virða og viðurkenna þau eins og þau eru. Þessu má líkja við jarðveg þar sem einstaklingur táknar fræ. Hæfni einstaklingsins og eiginleikar hans búa innra með fræinu en aðeins með næringu, umönnun og stuðningi frá öðrum getur einstaklingur dafnað og hámarkað hæfileika sína. 

 

Hægt er að sýna viðurkenningu á margvíslegan hátt, ýmist án orða og inngripa eða í töluðu orði. Viðurkenningu án orða er komið á framfæri með svipbrigðum og líkamstjáningu en gott er að hafa í huga að grípa ekki fram fyrir hendur barnsins nema það sé að stefna sér í voða. Hægt að sýna viðurkenningu með því að vera nálægt barninu, sýna leik þess og verkefnum áhuga, hlusta á það og spyrja barnið opinna spurninga. 

 

Gott er að leyfa börnum að njóta sín án þess að reka á eftir þeim eða setja á þau tímamörk þegar við á. Með því að grípa ekki fram fyrir hendur þeirra leyfa foreldrar þeim að haga hlutunum eftir eigin höfði en ef/þegar börnin gera mistök læra þau frekar af þeim. Mikilvægt er að börn fái að reka sig á svo þau öðlist það sjálfstæði að taka ábyrgð á eigin gjörðum. Viðeigandi er að minna á málsháttinn ,,brennt barn forðast eldinn“ því öll lærum við af reynslunni.

Samskiptaaðferðir

Hér fyrir neðan er að sjá ýmsar aðferðir sem hægt er að nýta sér til góðs í samskiptum foreldra og barna. Bæði er hér að finna aðferðir til að tileinka sér jákvæðari og árangursríkari samskipta leiðir og verkfæri til að taka á ýmsum ágreiningsmálum og bæta samvinnu fjölskyldunnar.

Lausn ágreiningsmála

Aðferð til að leysa úr ágreiningi á farsælan hátt.

Hlusta á hvað börnin hafa að segja

Mikilvægi þess að ýta undir frjálsa tjáningu barna.

Virk hlustun

Hlusta, skilja og virða tjáningu barna.

,,Ég boð'' og ,,Þú boð''

​Áhersla lögð á afleiðingar frekar en orsök

Heimildir

Burgess, H. (2013, júní). I-messages and you-messages. Beyond Intractability. https://www.beyondintractability.org/essay/i-messages#:~:text=One%20way%20to%20do%20this,(another%20bad%20thing).%22

Gordon, T. (2014). Samskipti foreldra og barna: Að ala upp ábyrga æsku. (Ingi Karl Jóhannesson þýddi). Iðnú (frumútgáfa 1970). 

Mincemoyer, C. C. (2016). Acknowledging children’s efforts. PennState Extension. http://bkc-od-media.vmhost.psu.edu/documents/TIPS1212.pdf 

Shrivastava, A. (2014). Active empathic listening as a tool for better communication. International Journal of Marketing & Business Communication, 3(3), 13-18. https://www.proquest.com/scholarly-journals/active-empathic-listening-as-tool-better/docview/1733234922/se-2?accountid=28822 

Sigrún Aðalbjarnardóttir. (2019). Lífssögur ungs fólks. Samskipti, áhættuhegðun og styrkleikar. Háskólaútgáfan.

Sigrún Aðalbjarnardóttir og Árný Elíasdóttir. (2009). Samvera. Ræðum saman - heima: Handbók fyrir foreldra og kennara. Námsgagnastofnun.

©2022 by Hagnýt uppeldisráð.

bottom of page