top of page

Þroski og matarvenjur

Þroskabreytingar manneskjunnar eru flóknar, fjölbreyttar og aldrei eins. Út allt lífið er manneskjan að þroskast en ein stærstu þroskastökkin tökum við á barnsaldri.

 

Leikskólaárin einkennast af margvíslegum og einstökum þroskabreytingum, áhrifamiklum lærdómi og frjálsum leik. Börnin eru sífellt að uppgötva nýja hluti og frjóvga ímyndunaraflið ásamt því að vera yfirleitt mjög glöð og kát. 

Toddler with Wooden Toys

Eðlilegir þættir í lífi barna hafa áhrif á þroska þeirra, þættir sem teljast vera partur af barnslegu eðli. Til dæmis hafa eltingaleikir áhrif á líkamlega þroska þeirra á meðan að hlusta á sögur, orð og vangaveltur hafa áhrif á þróun heilastarfsemi þeirra. Ásamt því hefur frjáls leikur áhrif á félagsfærni og þróun siðferðiskenndar. Hreyfing spilar einnig stórt hlutverk í lífi barna þar sem sannað hefur verið að hún veiti þeim hamingju og gleði. Auk þess veitir hreyfing þeim árangursríkan lærdóm og örvar líkamlegan og vitsmunalegan þroska þeirra. 

Heilastarfsemi barna er í stanslausri þróun á leikskólaárunum og mikil líffræðileg breyting á sér stað. Þar sem börnin fá mikla félagslega örvun á leikskólanum taka þau út mikinn sjáanlegan vitsmunalegan þroska á þeim árum. Taugatengingar sem myndast í heila þeirra ráða því hvernig börnunum gengur að stjórna hvötum sínum og þjálfa með sér sjálfstjórn. Innri hvatir þeirra birtast oft þá í óróleika, erfiðleikum við að sitja kyrr ásamt minni getu til að halda athygli og einbeitingu við ákveðið verk.

Heilbrigðar matarvenjur

Börn á leikskólaaldri þroskast hratt og mikið og því er nauðsynlegt að huga að mataræði þeirra í leikskóla og á heimilinu. Mörgum börnum í nútímasamfélagi skortir ýmis nauðsynleg vítamín sem þau þurfa til að styðja við þann mikla líkamlega þroska sem á sér stað. Reglulegur matartími spilar lykilhlutverk í lífi barna og er því mikilvægt að þau borði á sama tíma alla daga, nema í undantekningar tilfellum líkt og á tyllidögum. 

Regla á matartíma kemur í veg fyrir neikvæðar afleiðingar sem óregla hefur á matarvenjur einstaklinga. Það er einnig gott að gæta þess að reyna að borða kvöldverð saman sem fjölskylda þar sem allir sitja við matarborðið til að búa til ákjósanlegar fjölskylduhefðir. Einnig er hægt að nýta þann tíma sem gæðastund fjölskyldunnar og kenna börnum góða siði og venjur. Að borða reglulega og á sama tíma yfir daginn hefur meðal annars þann kost að gæta þess að börn verði ekki of svöng eða pirruð en þannig er mögulega hægt að koma í veg fyrir að árekstrar eigi sér stað á milli barna og foreldra. 

Eðlilegt er að matarlyst barna minnki á leikskólaaldrinum og er gott að hafa í huga að leyfa börnum að ráða svolítið ferðinni og finna sjálf hversu mikið þau vilja borða í senn. Foreldrar eiga það til að ofmeta hversu mikið börn þurfa að borða sem getur í einstaka tilfellum leitt til ofáts og ofþyngdar. Börn eru fær um læra að stilla sér hóf á sinn eigin hátt ásamt því að þekkja sinn líkama og hungur. Til að gæta að heilbrigðum þroska barna verða fjölskyldur að mynda heilbrigðar venjur og stuðla að þeim í daglegu lífi.  

Heimildir

Aldís Unnur Guðmundsdóttir. (2007). Þroskasálfræði: Lengi býr að fyrstu gerð. Mál og Menning. 

Berger, K. S. (2017). The developing person through the life span (10. útgáfa). Macmillan

education. 

Margrét Pála Ólafsdóttir. (2011). Uppeldi er ævintýri. Bókafélagið.

Piaget, J. (1951). Play, dreams and imitation in childhood. (C. Cattegno og F. M. Hodgson þýddu). Routledge & Kegan Paul. 

Wang, J. H. (2004). A Study on Gross Motor Skills of Preschool Children: JRCE. Journal of
Research in Childhood Education, 19(1), 32-43.
https://doi.org/10.1080/02568540409595052

©2022 by Hagnýt uppeldisráð.

bottom of page