top of page
Father and Children

Tengslamyndun

Tengslamyndun á við þá tengingu sem myndast milli barns og helsta umönnunaraðila þess sem yfirleitt er foreldri. Nýfædd börn eru mjög háð umönnunaraðila sínum fyrstu mánuðina og árin en hann veitir barni ást, umhyggju og huggun. Á milli þeirra verður mikil nánd og þau læra inn á viðbrögð og tjáningu hvers annars. Barn treystir á þennan aðila og velur hann oft fram yfir aðra en hann lærir með reynslunni að þekkja þarfir barnsins og mæta þeim á fullnægjandi hátt. 

Mikilvægi nándar

Til að rækta tengsl við barn sitt þarf að skapa nánd og sýna barninu ástúð. Í daglegu lífi eykst nálægð milli foreldris og barns og mikilvægt er að hún einkennist af virðingu því þá lærir barn að virða sjálft sig og líkama sinn. Þá fær barnið einnig þau skilaboð að það skipti máli og hafi tilgang í lífi foreldra sinna og sömuleiðis sem einstaklingur. Samband milli barns og foreldris er í flestum tilvikum lengsta sambandið sem barnið á yfir ævina og því er mikilvægt að rækta og það og styrkja. 

Mikilvægi öryggis

Góð tengslamyndun milli foreldra og barns veitir barninu tilfinningalegt og líkamlegt öryggi sem er þeim afar mikilvægt. Það gerir barninu meðal annars kleift að skoða umhverfi sitt betur því þá þorir það að leita út fyrir öryggi umönnunaraðila síns. Barnið hefur þá lært og veit að það getur alltaf snúið til baka í öruggt fang hans og fengið þar huggun og væntumþykju. 

Gott er að muna að tengslamyndun byggist á næmni umönnunaraðila til að þekkja þarfir og tjáningu barnsins og viðbrögðum hans við köllum þess. Það lærist með tímanum en er ekki meðfædd hæfni foreldra og því er mikilvægt að gefa sér tíma til að kynnast barninu og mynda við það órjúfanleg tengsl.

Ánægjuleg samskipti

Mikilvægt er fyrir góða tengslamyndun að samskipti milli umönnunaraðila og barnsins séu ánægjuleg fyrir báða aðila. Þá er gott að hafa í huga að ánægja barns og foreldris af félagsskap hvers annars er mikilvægari en fjöldi þeirra stunda sem þau verja saman. Til dæmis er gott að hafa í huga að draga úr utanaðkomandi truflunum líkt og frá farsíma eða sjónvarpi og njóta samverustunda heilshugar með barninu sínu. Góðar samverustundir geta meðal annars verið að leika með barni, lesa bækur, fara í sund eða njóta annarar útiveru. Ef barni er veitt athygli, hlýja og ástúð sem einkennist af stöðugleika er lagður góður grunnur að andlegu heilbrigði þess. 

Áhrif á samskiptahæfni

Tengsl sem barn á við foreldri ræður miklu um það hvernig framtíðar samskipti og sambönd þess verða. Tengsl sem barn hefur myndað við foreldri geta gert aðlögun að leikskóla auðveldari því góð tengsl hafa jákvæð áhrif á aðlögunarhæfni barna í félagahóp og hvernig því semur við aðra. Jafnframt geta góð tengsl haft áhrif á hvernig barn myndar og viðheldur samböndum við vini og maka á fullorðinsárunum. Ef barn fær ekki nægilega ástúð frá foreldrum sínum er líklegra að það upplifi kvíða, hafi mikla þörf fyrir athygli og finni frekar til hefndar tilfinninga sem geta leitt til sektarkenndar og depurðar hjá barninu. Þetta gerist vegna þess að börn hafa mikla þörf fyrir ástúð og umhyggju foreldris en þegar hún fæst ekki upplifir barn erfiðar tilfinningar sem það getur ekki tekist á við eitt síns liðs.

Tengslamynstur

Tengslamynstur barns ræðst af því hvernig tengslamyndun milli barns og foreldris er. Þannig er hægt að greina tengslamynstur barna með tilraun sem kölluð er „The Strange-Situation” en hún er oft gerð á börnum á öðru aldursári. Í tilrauninni eru viðbrögð barna skoðuð í ókunnugum aðstæðum og við fjarveru móður sinnar. Tilrauninni er ætlað að vekja streituviðbragð hjá barninu en hversu fljótt barnið er að jafna sig þegar það getur leitað aftur til móður sinnar segir mikið til um tengslamynstur þess. Þá er hægt að skipta tengslmynstrunum bæði í örugg og óörugg tengsl en innan óöruggra tengsla eru þrír undirflokkar. Vegna þess að tilraunin er gerð á móður og barni verður talað um móður sem umönnunaraðila í þessum kafla. 

Hér er hægt að horfa á stutt myndband um hvernig tilraunin fer fram

Örugg tengsl

Börn með örugg tengsl upplifa streitu þegar móðir þeirra yfirgefur rýmið, þau leita eftir henni og fara mörg hver að gráta. Þegar móðirin kemur aftur tekur barnið henni fagnandi og leitar til hennar og þegar barnið róast sýnir það á ný merki ánægju og getur snúið sér aftur að fyrri leik. 

 

Þrír undirflokkar óöruggra tengsla

Forðunartengsl

Börn með forðunartengsl skoða umhverfi sitt án þess að sýna þörf fyrir öryggi móður sinnar. Þegar móðirin yfirgefur rýmið sýna þessi börn lítil viðbrögð en einnig þegar hún kemur til baka. Þessi börn virka því örugg í ókunnugum aðstæðum, þau þurfa lítið að leita til móður sinnar og hunsa hana jafnvel, ásamt því er líkamleg snerting þeirra takmörkuð. Lítil streitumerki barns geta þó verið villandi því innra með barninu slær hjarta þess hratt og það framleiðir mikil streituhormón. Þessi börn hafa að öllum líkindum upplifað höfnun frá móður eða að hún er ekki nægilega fær um að mæta þörfum þess. Til að vernda sjálft sig dregur barnið úr þörfinni fyrir tengsl og nánd og myndar því forðunartengsl. 

 

Höfnunartengsl

Börn með höfnunartengsl eru háð móður sinni en á sama tíma hafna þau henni. Þau halda mikilli nálægð við móður sína og þora varla að sleppa af henni takinu til að skoða umhverfi sitt. Þessi börn komast í mikið uppnám og gráta sárt við aðskilnað og eru oft lengi að jafna sig þegar móðirin snýr aftur. Ef móðir reynir að taka barnið upp sýnir barnið þörf fyrir nánd en á sama tíma er það líklegt til að hafna tilraunum móður sinnar með því að sparka frá sér, snúa sér eða ýta. Líklega upplifa þessi börn móður sína ófyrirsjáanlega í tjáningu sinni. Barnið á því erfiðara með að tengjast móður sinni og upplifir frekar kvíða og óvissu yfir því hvort það geti treyst á móður sína. 

 

Ruglingsleg tengsl

Börn með ruglingsleg tengsl sýna blöndu af forðunar og höfnunar tengslum en auk þess sýna þau ráðvillt viðbrögð. Þá til dæmis hlaupa þau til móðurinnar en stöðva á miðri leið og jafnvel snúa við. Í sumum tilvikum stirðna þau upp eða sýna önnur hræðsluviðbrögð. Þessi börn upplifa hegðun móður sinnar ruglingslega eða ógnandi sem vekur ótta og uppnám hjá þeim. Tengslamynstur þessara barna verður oft ruglingslegt vegna þess að móðir barnsins sem á veita ástúð og öryggi er nú uppspretta óreiðu og hræðslu. 

 

Andlegt jafnvægi foreldris

Ekkert foreldri ætlar af ásettu ráði að haga sér á þann hátt sem veldur óöruggum tengslum. Yfirleitt verða óörugg tengslamynstur til vegna ómeðhöndlaðra áfalla foreldris eða undirliggjandi óleystum vanda. Umönnunaraðili verður þá að vinna úr sinni eigin fortíð svo hann geti skapað barni sínu heilbrigð uppeldisskilyrði. 

Heimildir

Ainsworth, M. D. S., Blehar, M. C., Waters, E. og Wall, S. N. (2015). Patterns of attachment: A psychological study of the strange situation. Routledge. 

Belsky, J. (2006). Determinants and consequences of infant-parent attachment. Í L. Balter og C.S Tamis-LeMonda (ritstjórar), Child psychology: A handbook of contemporary issues (2. útgáfa, bls. 53-77). Psychology press.

Bowlby, J. (1990). Child care and the growth of love. Penguin Books. (frumútgáfa 1953)

Bowlby, J. (1991). Attachment and loss. Volume 1: Attachment. Penguin books (frumútgáfa 1969).

Cummings, E., M. og Warmuth, K., A. (2019). Parenting and attachment. Í M.H. Bornstein (ritstjóri), Handbook of parenting. Volume 4: Social conditions and applied parenting. (3. útgáfa, bls. 374-400) Routledge. 

Siegel, D. J. og Hartzell, M. (2014). Parenting from the inside out: How a deeper self-understanding can help you raise children who thrive. Penguin Group. 

Sæunn Kjartansdóttir. (2009). Árin sem enginn man: Áhrif frumbernskunnar á börn og fullorðna. Mál og menning. 

bottom of page