top of page
Gay Couple with their Daughter

Uppeldisaðferðir

Fjöldinn allur af kenningum um uppeldisaðferðir hafa litið dagsins ljós en þær eru flestar byggðar á rannsóknum fræðimanna sem hafa fylgt eftir foreldrum og börnum þeirra og kannað hvernig samskipti þeirra eru. 

Ein vinsælasta kenningin er eftir Diönu Baumrind en hún flokkaði tegundir uppeldisaðferða með því að fylgjast með börnum og foreldrum bæði á heimilum þeirra og í leikskólum.

Uppeldisaðferðir Baumrind

Margir foreldrar velta fyrir sér hvernig sé best að annast uppeldið til að auka farsæld barna sinna. Vitsmunir og almenn skynsemi er vissulega mikilvægt veganesti fyrir foreldra og börn en gagnlegt getur verið að vera meðvitaður um hvað fræðimenn telja til góðra uppeldisaðferða. Fjöldinn allur af kenningum um uppeldisaðferðir hafa litið dagsins ljós en þær eru flestar byggðar á rannsóknum fræðimanna sem hafa fylgt eftir foreldrum og börnum þeirra og kannað hvernig samskipti þeirra eru. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Rannsókn Baumrind

Ein vinsælasta kenningin er eftir Diönu Baumrind en hún flokkaði tegundir uppeldisaðferða með því að fylgjast með börnum og foreldrum bæði á heimilum þeirra og í leikskólum. Í rannsóknum sem hún framkvæmdi árið 1971 skoðaði hún hvaða áhrif foreldrar hafa á börnin sín ásamt samskiptum þeirra á milli með hliðsjón af því hvernig foreldrar stjórna og halda aga á heimilinu. 

Meðal annars athugaði hún hvernig félags-, tilfinninga-, og vitsmunalegar þroskakröfur foreldrar gera til barna sinna. Baumrind fylgdist með börnunum með ýmsa aðra þætti í huga og gat greint uppeldið sem þau fengu í ákveðna hópa eftir hvað einkenndi hvert samband á milli barns og foreldris fyrir sig. Hóparnir eru fjórir, fyrst og fremst er leiðandi uppeldi (e. authoritative) sem talið er ákjósanlegast, næst er skipandi uppeldi (e. authoritarian), eftirlátt uppeldi (e. permissive) og svo að lokum er afskiptalaust uppeldi (e. rejecting-neglectful). Seinni þrír hóparnir þykja ekki eins heillavænlegir í uppeldi barna. 

Ddpku4EE5mfuWPTf7pKYrRKT.jpeg

Leiðandi uppeldi

Leiðandi uppeldi er talinn besti kosturinn hvað varðar uppeldishætti sem hafa verið sannprófaðir. Það sem einkennir leiðandi uppeldi er að foreldrarnir krefjast þroskaðrar hegðunar af barni en eru einnig móttækilegir fyrir hugmyndum og skoðunum þess. Þeir fylgjast með og setja barni skýr mörk um hvað sé ákjósanlegt og hvað ekki, þeir útskýra sína hlið og hvetja börnin til að skýra sín sjónarmið á móti. Foreldrarnir eru ákveðnir, en ekki uppáþrengjandi né setja þeim stólinn fyrir dyrnar. Þeir sýna börnum sínum mikla hlýju og uppörvun og vilja að þau séu sjálfsörugg og samfélagslega ábyrg. 

 

Skipandi uppeldi

Skipandi uppeldi þýðir að foreldrarnir stjórna börnum sínum með boðum og bönnum ásamt því að vera kröfuharðir og refsa þeim fyrir misgjörðir. Þessi uppeldisháttur er ekki talinn æskilegur því foreldrarnir setja barni reglur án þess að útskýra þær og ætlast til þess að farið verði eftir þeim. Þeir styðjast því sjaldan við röksemdir og nota ,,vegna þess að ég segi það’’ sem rök og má því segja að óæskileg samskipti einkenni uppeldisaðferðina. Foreldrarnir sýna börnum sínum litla hlýju og eru ekki eins uppörvandi líkt og foreldrar sem styðjast við leiðandi uppeldishætti.

Eftirlátt uppeldi

Eftirlátt uppeldi þýðir að foreldrar bregðast vel við hugmyndum barna sinna en krefjast ekki þroskaðrar hegðunar af þeim. Þeir leyfa börnum sínum töluverða sjálfstjórn, forðast beina árekstra við þau og setja þeim ekki skýr mörk. Eftirlátir foreldrar sýna mikla hlýju í garð barna sinna en láta aftur á móti auðveldlega eftir þeim. Þeir hafa fáar reglur og lítil mörk og krefjast ekki mikils af börnunum sínum. 

 

Afskiptalaust uppeldi

Afskiptalaust uppeldi má segja að einkennist af nokkurri vanrækslu. Foreldrarnir eru hvorki kröfuharðir né móttækilegir fyrir skoðunum barna sinna. Þeir ala upp börnin sín í þó nokkru stjórnleysi og er það yfirleitt vegna eigin vanlíðan eða vangetu til foreldrahlutverksins. Þeir setja því börnum sínum litlar kröfur og mörk og fylgjast ekki mjög náið með þeim né sýna þeim stuðning og taka því lítinn þátt í lífi barnsins.

Þegar stuðst er við leiðandi uppeldi

Samspil umhyggju, skýrra marka og frelsi til eigin skoðanna eru lykilatriði þegar stuðst er við leiðandi uppeldi. Þegar foreldrar hafa lagt grunn að öruggu umhverfi til að deila skoðunum og tilfinningum eru auknar líkur á að barn hlýði og taki frekar mark á fyrirmælum foreldra. Einnig er mikilvægt að foreldrar vinni vel saman og styðjist báðir við leiðandi uppeldi. Þannig er hægt að koma í veg fyrir rugling hjá barni og tryggja að það upplifi ekki annað foreldrið í neikvæðara ljósi. Foreldrar ættu ekki endilega að sækjast eftir að vera bestu vinir barnsins heldur leiðbeinendur þess í lífinu. Foreldrahlutverkið er ekki vinsældarkeppni en mikilvægt er að eiga gott samband við barn sitt. Samband sem foreldri og barn mynda fylgir þeim til frambúðar og því er mikilvægt að foreldrar gegni því hlutverki að vera örugg höfn barna sinna sem þau geta leitað til ef eitthvað bjátar á.

Leiðandi uppeldi felur í sér að foreldrar taka virkan þátt í lífi barna sinna. Þeir hvetja börnin sín áfram, styðja við þau og sýna því áhuga sem þau taka sér fyrir hendur. Það geta foreldrar til dæmis gert með því að mæta á íþróttaviðburði, sýningar, skóla viðburði og annað sem barnið tekur þátt í. Þeir eru meðvitaðir um stöðu barna sinna í þroska, námi og félagahóp og veita þeim stuðning og uppörvun hvað það varðar. Einnig er gott að hafa í huga þegar stuðst er við leiðandi uppeldi að spara ekki hrós, ást og umhyggju. 

Samræður eru einkennandi fyrir fjölskyldur sem styðjast við leiðandi uppeldi. Þá er gott að gera kröfu um þroskaða hegðun barns í samræmi við aldur þess. Samræðurnar litast af gagnkvæmri virðingu og virkri hlustun foreldra um hvað barnið hefur að segja og þeir taka einnig vel á móti hugmyndum þess. Það þýðir ekki að þeir samþykkja hugmyndir barnsins gagnrýnislaust en gera aftur á móti ekki lítið úr þeim. Við ákvarðanatöku um málefni sem varðar barnið ættu foreldrar að taka tillit til skoðana barnsins og leyfa því að hafa áhrif á hvaða ákvörðun er tekin. Þetta á aðallega við um þegar börn hafa náð þeim þroska að geta tekið þátt í slíkum samræðum og ákvarðanatökum. Ef þessu er framfylgt lærir barn að virða og taka tillit til skoðana foreldra sinna. Ef börn mótmæla er gott að gera þeim grein fyrir að ákvörðun foreldra sé yfirleitt til að gæta öryggis og hagsmuna barnsins. 

Þegar sett eru skýr mörk og barni gert grein fyrir hvað má og hvað má ekki er mikilvægt að skýra fyrir því hvaða mögulegu afleiðingar gætu orðið ef ekki er framfylgt reglunum. Það hjálpar barni að skilja hvers vegna reglurnar gilda og eykur líkur á að það hlýði þeim. Þess vegna hafa skipandi uppeldishættir ekki eins góð áhrif því ,,ég segi það“ veitir ekki börnum þá útskýringu sem þau skilja og þurfa. Það býr til óþarfa rugling sem leiðir til mótmæla og uppreisnar barnsins. 

Kostir leiðandi uppeldis

Leiðandi uppeldi hefur margvísleg jákvæð áhrif á þroska og velferð barna. Börn sem alast upp við leiðandi uppeldi sýna fram á betri samskiptahæfni ásamt aukinni hæfni við að setja sig í spor annarra. Þau eru því einnig færari í að sundurgreina ólík sjónarmið fólks og eru betri í að samhæfa þau. Þessi börn eru einnig líklegri til að hafa sterkara sjálfsálit og sýna fram á almennt betri líðan á öllum aldri en börn sem alast ekki upp við leiðandi uppeldi. Börn sem alast upp við leiðandi uppeldi eru einnig líklegri til að hafa meiri sjálfstjórn á unglings- og fullorðinsárunum sem dregur úr áhættuhegðun af einhverju tagi. Þau eru síður líkleg til að neyta áfengis, tóbaks og annarra vímuefna og sýna yfirleitt fram á betri frammistöðu í námi. 

Heimildir

Baumrind, D. (1971). Current patterns of parental authority. Developmental psychology monograph , 4, 1-103.

Baumrind, D. (1991). The influence of parenting style on adolescent competence and

substance use. Journal of Early Adolescence, 11(1), 56-95.

Hrund Þórarinsdóttir og Sigrún Aðalbjarnardóttir. (2010). Sýn foreldra á uppeldishlutverk sitt. Í Salvör Nordal, Sigrún Júlíusdóttir og Vilhjálmur Árnason (ritstjórar), Velferð barna, gildismat og ábyrgð samfélags (bls. 115-131). Siðfræðistofnun - Háskólaútgáfan. 

Maccoby, E. E., Martin, J. A. (1983). Socialization in the context of the family: Parent-child interaction. Í P. H. Mussen (ritstjóri), Handbook of child psychology: Socialization, personality and social development (4. útgáfa, bls. 1-101). NY: Wiley.

Sigrún Aðalbjarnardóttir. (2019). Lífssögur ungs fólks. Samskipti, áhættuhegðun og styrkleikar. Háskólaútgáfan.

Steinberg, L. (2004). The 10 basic principles of good parenting. Simon & Schuster. 

©2022 by Hagnýt uppeldisráð.

bottom of page