top of page

Að halda aga og setja skýr mörk

side view of african american mother talking with her daughter indoors.jpg

Það er ekki hægt að ofdekra börnin sín af ást og umhyggju, svo hefur verið sannað. En það er hins vegar hægt að veita þeim of lausan taum með óskýrum eða of litlum mörkum. Sama á við ef litlar væntingar eru gerðar til barna og engar reglur gilda. Það ruglar börn í rýminu því þau vita ekki til hvers er ætlast af þeim. Einnig getur það valdið ringulreið ef reglur eru settar sem einungis gilda þegar foreldrar vilja að þær gildi. 

Skýrar reglur

Reglur og mörk veita börnum leiðsögn og öryggi sem þau hafa mikla þörf fyrir. Reglur eiga að vera í samræmi við þroska og aldur barnanna en þær eiga foreldrar að setja með heilbrigði og velferð barnsins í huga. Með skýrum reglum eru foreldrar einnig að senda börnunum þau skilaboð að þeir vænti þess að þau hagi sér á viðeigandi hátt eftir þroska og aldri. 

 

Mikilvægt er að útskýra hvers vegna ákveðnar reglur gilda svo barnið myndi skilning á því en þá verður barnið einnig enn meðvitaðra um til hvers er ætlast af því. Það hjálpar þeim að stjórna hegðun sinni og eflir sjálfsstjórn þeirra sem er nauðsynleg hæfni á öllum aldri. 

Aðlaga skal reglur að barni

Mikilvægt er að horfa með gagnrýnum augum á þær reglur sem settar eru fyrir og hvaða áhrif þær hafa á barnið. Reglurnar ættu alltaf að taka mið af aldri og þroska barns sem og skapgerð þess. Gera má ráð fyrir að sama regla virki ekki eins fyrir öll börn vegna mismunandi persónuleika og skapgerðar og því verður að skoða hvað hentar hverju barni. 

 

Þegar barn skilur hvers vegna reglurnar eru settar eykur það líkur á að það framfylgi þeim vegna þess að það áttar sig á að þær eru settar með hag þeirra í huga. Sem dæmi um reglu sem barn gæti mótmælt síðar er að það skal ávallt hjóla með hjálm. Reglan er sett til að koma í veg fyrir að barnið slasist ef það dettur, þá er gott að útskýra það fyrir barninu svo það geri sér grein fyrir mikilvægi reglunnar. Það lærir að reglurnar eru þeim til verndar en ekki einungis óþarfa yfirvald foreldranna. Þegar samræður um reglur eiga sér stað er mikilvægt að þær einkennist af virðingu og umhyggju en þá mega foreldrarnir eiga von á að fá slíkt til baka frá börnum sínum. 

Mistök eru eðlilegur hluti lífsins 

Börn eru endalaust að spreyta sig áfram en því því fylgir að þau gera mistök en það er hluti mannlegs eðlis. Mistök eru óhjákvæmileg, sérstaklega þegar verið er að uppgötva nýja hluti. Fullorðna fólkið er ekki undanþegið frá því að gera mistök en þá er gríðarlega mikilvægt að viðurkenna þau fyrir barni, sérstaklega ef mistökin bitnuðu á þeim. Þá bæði sér barn að það er í lagi að gera mistök og lærir að biðjast afsökunar. 

 

Foreldrar eru mannlegir og ættu þeir ekki að hræðast að viðurkenna fyrir börnum sínum að þeir séu ekki fullkomnir. Barn fær þá raunhæfari sýn á eigin getu og annarra en þá er ólíklegra að það upplifi vanlíðan vegna of mikillar utanaðkomandi pressu. 

Huga skal að eigin viðbrögðum

Geri barn mistök er mikilvægt að taka mið af ásetningi barnsins og bregðast ekki of harkalega við. Gott er að ræða við það til að komast að því hvað varð til þess að atburðurinn átti sér stað og hver áætlun þess var. Það er góður vani að temja sér til að koma í veg fyrir of hörð viðbrögð sem gæti fælt barnið frá því að skýra sína hlið. Ef barnið fær tækifæri til að segja frá atvikinu er hægt að leiðbeina því með því að benda á hvað hefði betur mátt fara og veita því uppbyggilega aðstoð. Það sendir barninu einnig þau skilaboð að öruggt sé að leita til foreldra sinna þegar það gerir mistök sem eykur traust þeirra á milli. 

Skiptar skoðanir foreldra

Mikilvægt er að hafa í huga að í samskiptum er eðlilegt að eitthvað misræmi skapist og þá sérstaklega á milli foreldra og barna. Óraunhæft er að foreldrar skipti aldrei skapi og hafi óbreytta skoðun á ákveðnu málefni yfir langan tíma. Mikilvægt er þó að vera samkvæmur sjálfum sér varðandi þær reglur sem settar eru barni og eiga samræður um þau málefni sem viðkoma barninu. 

 

Foreldrar geta verið ósammála hvort öðru en oft er það vegna þess að hegðun barns getur vakið ólíkar tilfinningar hjá þeim. Börn gera sér oftast grein fyrir því þegar annað foreldrið er ákveðnara en hitt og getur það leitt til þess að barnið sjái það foreldri í neikvæðara ljósi. Þegar foreldrar hafa tök á er gott að ræða sín á milli og taka tillit til skoðana hvers annars. Annars er hætta á að togstreita skapist á milli þeirra sem börnin skynja. 

 

Á þann veg er börnunum einnig sýnt að hægt er að ræða málin á rólegum nótum og finna sameiginlega lausn. Þegar barnið hefur náð ákveðnum þroska getur það jafnvel fengið að taka þátt í umræðunni en hafa skal í huga að foreldrar ættu í flestum tilvikum að taka tillit til skoðana og vilja barnsins þegar ákvarðanir koma því við. Foreldrar ættu þá að taka mið af aldri og þroska barnsins í ákvarðanatöku sinni. 

Að mynda góðar venjur

Stöðugleiki er mikilvægur þáttur þess að leggja æskilega hegðun barns í vana. Þetta á við um daglegar athafnir þar sem auðvelt er að setja ákveðna reglu um hvernig skuli framkvæma þær. Sem dæmi má nefna þá reglu að bursta tennur kvölds og morgna, þakka fyrir sig að loknum matmálstímum og laga til að loknum leik. Með slíkum reglum eru foreldrar einnig að kenna aldagamlar kurteisisvenjur sem teljast til góðra mannkosta. 

 

Mikilvægt er að hafa ákveðnar reglur og rútínu sem ávallt ætti að fylgja og helst aðeins víkja frá í undantekningartilfellum. Regla og rútína auðveldar foreldrum að halda aga á heimilinu en það er einnig mikilvægt fyrir öryggistilfinningu barnsins. Þá veit það við hverju á að búast hverju sinni og lærir að þekkja dagskrá hversdagsleikans. 

Agi krefst ekki valdbeitingar foreldra

Eitt af umdeildustu og erfiðustu hlutverkum foreldra í uppeldinu er eflaust að aga börnin sín og hefur málefnið oftar en ekki einkennst af neikvæðri umræðu. Ástæða þess er líklega að auðvelt er að álykta að um sé að ræða harðar og neikvæðar refsingar gagnvart börnum sem á aldrei að líða. 

Nauðsynlegt er því að skilja að agi og valdbeiting eru tveir frábrugðnir þættir því himinn og haf er þar á milli. Hægt er að halda aga með skýrum fyrirmælum án þess að ógna, nota líkamlegt afl eða setja í hlé eða ,,time-out’’ eins og hefur stundum tíðkast. Harðann aga ber að forðast því andlegt og líkamlegt ofbeldi gagnvart börnum er stranglega bannað lögum samkvæmt og hefur slæm áhrif á velferð barna.

 

Varast skal valdaójafnvægi sem getur myndast á milli foreldra og barna en þá nota foreldrar völd sín sem yfirráðandi fullorðinn aðili til að láta barn gera það sem því er sagt. Það þykir í dag úrelt og ekki talið æskilegt vegna neikvæðra áhrifa sem það getur haft á einstaklinga. Lykilatriði er að tala við börn af virðingu og umhyggju og hafa þeirra líðan og velferð í fyrirrúmi. Börn eiga þá að finna að skoðun þeirra og hugsun skiptir ekki minna máli en skoðun foreldrisins. Ef foreldrar sýna börnum sínum frekar meiri hlýju þurfa þeir sjaldnar að nota vald sitt. Ef upp kemur að þeir verði að nota vald sitt til að fá sínu framgengt skilar það meiri árangri hjá börnum þeirra en hjá foreldrum sem nota reglulega valdbeytingu.

Næmni og hlýja foreldris

Gott er að huga að því að sýna ávallt næmni og nærgætni í samskiptum við barn sitt, það skilar sér frekar í samviskusömum einstakling sem er líklegri til að hlusta á fyrirmæli foreldra sinna. Foreldrar sem sýna meiri hlýju í garð barna sinna mynda við þau öruggari tengsl en foreldrar sem nota valdbeytingu. Ef oftar er gripið til þess að beita valdi án þess að taka mið af ásetningi, þreytu eða vanlíðan barnsins hefur það oft neikvæðar afleiðingar í för með sér og getur leitt til þess félagsmótun barnanna skerðist og óhlýðni þeirra eykst. 

Til að halda aga og setja barni skýr mörk er mikilvægt að byrja snemma í lífi barns. Þá lærir barnið að virða reglurnar og  fylgja þeim eftir og þannig þjálfar barnið með sér betri sjálfstjórn og á auðveldara með að setja sín eigin mörk í framtíðinni. Góð samskipti sem einkennast af virðingu og umhyggju er forsenda þess að foreldrar setji börnum sínum skýr mörk og að þau fylgi þeim eftir.

Heimildir

Barnalög nr. 76/2003

Gordon, T. (2014). Samskipti foreldra og barna: Að ala upp ábyrga æsku. (Ingi Karl Jóhannesson þýddi). Iðnú (frumútgáfa 1970). 

Hrund Þórarinsdóttir og Sigrún Aðalbjarnardóttir. (2010). Sýn foreldra á uppeldishlutverk sitt. Í Salvör Nordal, Sigrún Júlíusdóttir og Vilhjálmur Árnason (ritstjórar), Velferð barna, gildismat og ábyrgð samfélags (bls. 115-131). Siðfræðistofnun - Háskólaútgáfan. 

Margrét Pála Ólafsdóttir. (2011). Uppeldi er ævintýri. Bókafélagið. 

Sigrún Aðalbjarnardóttir. (2007). Virðing og umhyggja. Ákall 21. aldar. Háskólaútgáfan.

Sigrún Aðalbjarnardóttir. (2019). Lífssögur ungs fólks. Samskipti, áhættuhegðun og styrkleikar. Háskólaútgáfan.

Steinberg, L. (2004). The 10 basic principles of good parenting. Simon & Schuster. 

Towe-Goodman, N. R. og Teti, D. M. (2008). Power assertive discipline, maternal emotional involvement, and child adjustment. Journal of family psychology, 22(3), 648-651.  https://doi.org/10.1037/a0012661

©2022 by Hagnýt uppeldisráð.

bottom of page