top of page
Parent and Child

Hlutverk og ábyrgð foreldra

Foreldrahlutverkinu fylgir mikil ábyrgð og skuldbinding og má því segja að fá hlutverk krefjist jafn mikillar aðlögunarhæfni. Farið er frá því að hugsa einungis um sjálfan sig yfir í að verða foreldri og bera ábyrgð á annarri manneskju. Fyrstu ár barna eru þau algjörlega háð umönnunaraðila sínum, sem oftast eru foreldrarnir. Hlutverk foreldra eru því margslungin og getur ábyrgðin virst vera yfirþyrmandi. Þrátt fyrir það er mikilvægt að foreldrar séu meðvitaðir um hvaða ábyrgð felst í raun í hlutverki þeirra í uppeldinu.

Hafa skal í huga að það sem kemur hér fram er ekki tæmandi listi yfir hlutverk foreldra.

Hvað segja lögin?

Við könnumst flest við lög og reglur sem segja til um hvað má og hvað má ekki gera. Lög hafa meðal annars verið sett varðandi foreldrahlutverkið, ýmis barnalög, barnaverndarlög og lög um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Lögin eiga það sameiginlegt að gæta að hagsmunum og tryggja velferð barna. Barnalögum er ætlað að tryggja að börn njóti réttinda til að lifa, þroskast og njóta verndar, umönnunar og annarra réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska án mismununar af nokkru tagi.

 

Lögin eru einnig sett til að gæta þess að foreldrar sinni skyldum sínum gagnvart börnunum. Foreldrum ber að sýna börnum sínum umhyggju og nærgætni ásamt því að annast forsjár- og uppeldisskyldum sem best hentar þörfum þeirra. Gæta þarf þess sem foreldri að barn búi við viðunandi uppeldisaðstæður og að velferð þess sé í fyrirrúmi þar sem foreldrar bera meginábyrgð á þroska og uppeldi barna. Það sem er barninu fyrir bestu skal ávallt hafa forgang. 

Börn læra það sem fyrir þeim er haft

Hlutverk foreldra snertir á fleiri þáttum en einungis það sem kemur fram í lögum. Mikilvægt er að vera góð fyrirmynd fyrir börnin því þau læra það sem fyrir þeim er haft. Gott er að gera sér grein fyrir hvað uppeldi skiptir í raun miklu máli og taka meðvitaða ákvörðun um hvernig sé best að hátta því. Foreldrar ættu að setja sig inn í og skilja líðan og þarfir barna sinna.

 

Siðferðisleg gildi líkt og lífsgildi skipta máli því þau eru leiðarvísir í daglegu lífi okkar. Börn taka upp gildi foreldra sinna og því skiptir máli að tileinka sér góð og jákvæð gildi. Dæmi um ákjósanleg lífsgildi eru heiðarleiki, umburðarlyndi og að bera virðingu fyrir einstaklingum, hlutum og dýrum svo eitthvað sé nefnt. Gildi koma fram í samskiptum og því er gott að líta inn á við og sjá hvaða gildi foreldri hefur tileinkað sér og meta hvort það vilji að börnin sín tileinki sér sömu gildi. 

 

Samskipti á milli foreldra og barna litast af þeim gildum sem ríkja á heimili þeirra. Virðing og umhyggja eru gildi sem birtast oft í samskiptum foreldra og barna. Þess vegna getur einnig verið gott að vera meðvitaður um hvaða gildum maður kýs að lifa eftir, því þau munu spá fyrir um framkomu og samskipti sem maður á við aðra. Þetta á við um alla en er sérstaklega gott að hafa í huga í samskiptum við börn vegna þess að þau læra af þeim aðilum sem hafa áhrif á líf þeirra. Jákvæð og góð samskipti skipta því miklu máli fyrir líðan allra einstaklinga.

Það er mikilvægt fyrir börn að finna fyrir ást á heimili sínu svo þeim líði vel og þroskist á heilbrigðan hátt. Ef foreldrar hafa átt erfið uppvaxtarár, til dæmis orðið fyrir áföllum í bernsku eða verið beitt ofbeldi er mikilvægt að þeir vinni úr sinni lífsreynslu. Þannig tryggja foreldrarnir að þeir geti veitt börnum sínum gott og ástríkt uppeldi, því hegðun foreldra smitast oft á milli kynslóða. 

Það er ekki hægt að ofdekra börn með ást

Ást og umhyggja veitir börnum öryggistilfinningu og því er vert að nefna að ekki er hægt að ofdekra börnin sín með of mikilli ást. Aftur á móti ef börn fá ekki nægilega ást og umhyggju eru þau líklegri til að eiga erfitt með að tjá tilfinningar sínar og eiga frekar í vanda seinna á lífsleiðinni með að tjá og sýna ást til maka eða barns. Það getur einnig leitt til hegðunarvanda því börnin leitast við að fá athygli og viðurkenningu á annan hátt. 

 

Börn þrífast af stolti og hvatningu foreldra sinna en það skiptir máli hvernig og af hverju er hrósað. Ákjósanlegast er að hrósa barninu með orðum sem það tengir við sig sjálft en ekki við aðra líkt og foreldri. Sem dæmi ,,þú mátt vera stolt/ur af þér’’ en ekki ,,ég er svo stolt/ur af þér’’. Ef hrósað er fyrir afrek sem barnið hefur náð og vinnu sem liggur þar að baki gefur það barninu þau skilaboð að erfið vinna skilar góðu af sér og veitir ánægju að hafa náð tilteknu afreki. Þetta gefur barninu einnig þau skilaboð að það sé að standa sig vel fyrir sig sjálft en ekki vegna þess að ætlast er til að það geri það fyrir aðra. 

Heimildir

Barnalög nr. 76/2003

Barnaverndarlög nr. 80/2002

Dix, T. (1991). The affective organization of parenting: Adaptive and maladaptive processes. Psychological Bulletin, 110(1), 3-25. https://doi.org/10.1037/0033-2909.110.1.3

Duncan, L. G., Coatsworth, J. D. og Greenberg, M. T. (2009). A model of mindful parenting: Implications for parent-child relationships and prevention research. Clinical Child and Family Psychology Review, 12(3), 255-270. http://dx.doi.org/10.1007/s10567-009-0046-3

Feit, M., Joseph, J. og Petersen, A. C. (2014). New directions in child abuse and

neglect research. http://www.ncbi.nlm.nih.gov/books/NBK195983/ 

Hrund Þórarinsdóttir og Sigrún Aðalbjarnardóttir. (2010). Sýn foreldra á uppeldishlutverk sitt. Í Salvör Nordal, Sigrún Júlíusdóttir og Vilhjálmur Árnason (ritstjórar), Velferð barna, gildismat og ábyrgð samfélags (bls. 115-131). Siðfræðistofnun - Háskólaútgáfan. 

Lög um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr. 19/2013

Sigrún Aðalbjarnardóttir. (2019). Lífssögur ungs fólks. Samskipti, áhættuhegðun og styrkleikar. Háskólaútgáfan

Sigrún Aðalbjarnardóttir og Árný Elíasdóttir. (2009). Samvera. Ræðum saman - heima: Handbók fyrir foreldra og kennara. Námsgagnastofnun.

Steinberg, L. (2004). The 10 basic principles of good parenting. Simon & Schuster. 

Sæunn Kjartansdóttir. (2009). Árin sem enginn man: Áhrif frumbernskunnar á börn og fullorðna. Mál og menning. 

©2022 by Hagnýt uppeldisráð.

bottom of page